Search
  • Gunna Stella

Viðtal í morgunblaðinu 30. janúarÞann 30. janúar 2018 birtist viðtal sem tekið var við mig í tenslum við mig í tengslum við minimalisma vegferðina sem við fjölskyldan höfum verið á síðustu misseri. Greinin í heild sinni er hér að neðan:


Hjónin Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir og Aron Hinriksson eiga hugmyndina að komu Bandaríkjamannsins Joshua Becker hingað til lands, en hann er einn af þekktastu boðberum minimalisma í heiminum um þessar mundir. „Becker er áberandi rödd innan minimalisma-hreyfingarinnar, sem er viðbragð við ofkeyrslu og neysluhyggju nútímans. Okkur fannst einfaldlega jákvætt og þarft að leyfa rödd hans að heyrast og taka þessa umræðu í allri efnishyggjunni, sem hér ræður ríkjum. Við þurfum að greina hvað það er sem raunverulega veitir okkur hamingju. Er það fólgið í að eignast eins mikið og við getum? Eða er vert að taka til skoðunar að einfalda líf okkar og virkilega hugsa um það sem við þurfum og viljum í lífinu?“ segir Aron, forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu í Reykjavík, en Kirkjan stendur fyrir ráðstefnu um minimalisma, naumhyggju öðru nafni, þar sem fyrrnefndur Becker verður aðalnúmerið. Yfirskrift ráðstefnunnar er Einfaldara líf og flytur Becker þar tvo fyrirlestra.

Þegar Aron hefur lokið máli sínu segir hann snögglega: „Annars er konan mín miklu meira inn í þessu, viltu ekki bara tala við hana? Svo er hann rokinn. Gunnhildur Stella sem gjarnan er kölluð Gunna Stella situr fyrir svörum. Eins og eiginmaðurinn er hún kennari að mennt, starfaði sem slíkur í 12 ár, en hún sinnir nú ýmsum verkefnum samhliða námi í heilsumarkþjálfun, Þau búa í gömlu einbýlishúsi á Selfossi ásamt börnunum sínum fjórum, fjórtán ára dóttur, og átta, fimm og tveggja ára sonum.


Ofgnótt af dóti til vandræða

„Einn daginn áttaði ég mig á að ég var endalaust að taka til; hirða upp dót og ganga frá dóti. Auk þvotta og þrifa og alls kyns verka sem fylgja stóru heimili fór óskaplega mikill tími í að hugsa um allt þetta dót,“ segir Gunna Stella. Fyrir tæpum þremur árum hóf hún að leita leiða til að þurfa ekki eins mikið um það að hugsa. Besti tíminn til að hlusta á hljóðbækur um leiðina að einfaldara lífi var þegar hún gekk um húsið og tíndi upp dót og raðaði dóti. „Ekki leið á löngu þar til ég rakst á metsölubækur Beckers. Ég heillaðist af því sem hann hafði fram að færa, grandskoðaði vefsíðuna hans, las almennt mikið um minimalisma og horfði á myndbönd á youtube.

Í kjölfarið ákvað Gunna Stella að taka til hendinni á heimilinu svo um munaði. Hún hafði sannfærst um að í hraða hversdagsins var ofgnótt af dóti einungis til vandræða og eyddi hvort tveggja tíma fólks og peningum. Í byrjun gerðu Aron og börnin ekki annað en að horfa í forundrun á aðfarirnar. „Mitt fyrsta verk var að taka fataskápana í gegn, fyrst minn og síðan barnanna. Ég henti fötunum mínum í hrúgu á gólfið, tók síðan hverja flík fyrir sig og spurði sjálfa mig hvort hún kveikti hjá mér jákvæðar eða neikvæðar tilfinningar. Á endanum voru mjög fá föt eftir, en þó allt flíkur sem mig langaði að vera í og ég var bara ótrúlega ánægð.“


Friður og frelsistilfinning

Dóttirin fór svo með sama hætti í gegnum sína skápa og synirnir kærðu sig kollótta þótt mamma þeirra gerði þá nokkrum flíkunum færri. „Allt í einu þurftu strákarnir aðeins eina skúffu hver fyrir fötin sín. Samt áttu þeir allt sem þá vantaði og vel til skiptanna. Ef einhvert okkar bráðvantar föt er lítið mál að kaupa þau og leyfa sér þá meiri gæðaflíkur en áður. Minimalismi snýst enda ekki um að kaupa aldrei neitt, heldur að hugsa sig vel um og kaupa einungis það sem mann raunverulega vantar.“

Spurð hvernig hafi gengið að fá eiginmanninn í lið með sér segir Gunna Stella að hann hafi ekki strax „alveg verið að kaupa þetta“. „Síðan fór hann að hlusta á bækur Beckers, til dæmis The More of Less, gerði í kjölfarið rassíu og losaði sig við alls konar dót í bílskúrnum og annars staðar. Þótt við séum bæði safnarar í eðli okkar, fundum við mikinn létti og frelsistilfinningu.“


Meiri tími fyrir börnin og áhugamálin

Gunna Stella segir að vitaskuld sé töluverður fjárhagslegur ávinningur af þessum nýja lífstíl fjölskyldunnar. Raunar hafi þau hjónin gegnum tíðina yfirleitt keypt notuð húsgögn og hluti en fatnað aftur á móti á ferðum sínum erlendis. Ferðalög hafi alltaf verið í forgangi hjá þeim. „Að einfalda lífið, einfaldar okkur líka að geta ferðast. Varðandi fatnaðinn þá erum við svo heppin að hvorugt okkar er mikið gefið fyrir að elta tískustrauma, við höfum bara fundið okkar stíl,“ segir hún og heldur áfram:

„Mesti ávinningurinn er tvímælalaust að hafa meiri tíma til að vera með börnunum, hitta fólk og sinna áhugamálum okkar. Miklu skemmtilegra heldur en að koma heim, kannski þreytt eftir annasaman dag, og streða við að koma alls konar hlutum fyrir sem við þurfum ekkert endilega á að halda. Hlutir gera fólk ekki hamingjusamt.“

Og einna síst þeir sem safnast gjarnan upp í bað- og eldhússskápunum. Þótt sjálf hafi Gunna Stella ekki byrjað tiltektina á baðherberginu, ráðleggur hún fólki að hefja leikinn þar. „Hálftómar kremdollur, sjampóbrúsar, stakir bollar og diskar eru ólíkleg til að koma manni í tilfinningalegt uppnám,“ segir hún kankvís. Sjálf kveðst hún hafa upplifað æ meiri létti eftir því sem hlutunum á heimilinu fækkaði. Öfugt við marga kannast hún ekkert við að finnast hún þurfa nauðsynlega á hlut eða flík að halda, sem hún var nýbúin að losa sig við.


Orkídeurnar lifðu af

En höldum áfram stórtiltektinni með Gunnu Stellu. Eldhúsið næst. „Troðfullir skápar af alls konar óþarfa og borðin þakin dóti, sem var þar bara eins og af gömlum vana,“ segir hún og nefnir líka samlokugrill, blandara og ýmis þarfaþing, sem nú sitja settleg inni í skápum. Einungis kaffivélin og hrærivélin héldu sínum sessi, enda segist Gunna Stella elska að baka og hrærivélin sé nánast í daglegri notkun.

Þá segir hún þau hjónin elski bækur og að lesa, og því hafi þeim þótt erfitt að taka ákvörðun um bækurnar sínar. Tilfinningalegt uppnám virtist í aðsigi þar til þau ákváðu að þyrma eftirlætisbókunum og gefa hinar á nytjamarkað. „Bækurnar eru núna á einum stað í húsinu, í bókahillum, sem Aron smíðaði. Þegar ekki verður lengur pláss fyrir fleiri, förum við aftur í gegnum bókakostinn, veljum og höfnum.“

Án viðlíka eftirsjár hurfu skrautmunirnir einn af öðrum, enda flestir frekar óspennandi að mati Gunnu Stellu. Örfáir héldu sínum samastað og af stofublómunum voru þrjár orkídeur þær einu sem lifðu tiltektina af. Heimilið okkar er langt frá því að vera fullkomið en við erum komin vel af stað. Hún viðurkennir að vissulega hafi sumir hlutir tilfinningalegt gildi og erfitt geti veri að gefa þá frá sér. Teikningar barnanna, föt frá því þau voru lítil og annað sem tengist gömlum minningum svo fátt eitt sé nefnt. „Við fórum auðvitað ekki svo geyst í sakirnar að taka niður fjölskyldumyndirnar eða fleygja myndaalbúmunum,“ segir Gunna Stella til að fyrirbyggja að lýsingar hennar gefi þá mynd að minimalismi sé einhvers konar meinlæti og öfgastefna.


Að láta gott af sér leiða

„Þvert á móti er minimalismi fólgin í að hafa eitthvað í kringum sig sem manni finnst fallegt og veitir manni gleði,“ segir Gunna Stella, sem þessa dagana er ásamt Aroni og börnunum í Burkina Faso í Vestur-Afríku.

„Við tökum þátt í hjálparstafi á vegum ABC samtakanna. Við erum að heimsækja tengdaforeldra mína, sem hafa starfað þar í nokkur ár. Meiningin er að hjálpa til, reyna að láta gott af okkur leiða og leyfa börnunum að sjá hvernig aðrir búa og upplifa einfaldleikann.“

Af flakki og ferðalögum fjölskyldunnar segir meira á blogginu þeirra: www.flokkukindur.blogspot.is og á instagram: gunnastella

© 2017 Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir