Search
  • Gunna Stella

Marie Kondo æðið!


Æði hefur gripið landann! Við íslendingar erum svo miklir snillingar þegar kemur að því að fá dellu fyrir einhverju. Einn byrjar á Ketó og þá byrjar meirihluti landans á Ketó. Einn byrjar að horfa á Marie Kondo taka til á Netflix og þá byrjar meirihluti landans að taka til.


Ég er ótrúlega ánægð að heyra að fólk sé almennt farið að huga að því hversu mikið af hlutum er á heimilinu. Mikil óreiða og mikið af hlutum kemur getur valdið kvíða, streitu og erfiðleikum í samböndum. Ef leikföng þekja gólfin í barnaherberginu er mjög ólíklegt að börnin njóti þess að leika sér þar í einhvern tíma.
Ég fékk nóg!

Þegar ég var ófrísk af fjórða barninu okkar (árið 2015) þá fékk ég nóg af magni hlut á heimilinu okkar. Ég hringsnérist í kringum sjálfa mig. Við eigum heima í stóru húsi á tveimur hæðum og einhverra hluta vegna var þetta hús yfirfullt af dóti, leikföngum, húsgögnum, þvotti, þvotti og þvotti og öllu því sem “á” að fylgja stórri fjölskyldu. “Einhverra hluta vegna”. Við gátum svo sem sjálfum okkur um kennt. Við Aron maðurinn minn erum miklir safnarar í eðli okkar og stunduðum það að fara í antik bókabúðir þegar við vorum í námi erlendis og keyptum allskonar bækur á smápening. Bækur sem við lásum svo ekki einu sinni, heldur settum þær bara upp í hillu og létum þær safna ryki. Okkur fannst líka mjög gaman að heimsækja Nytjamarkaði og skipta út húsgögnum og sögðum yfirleitt já ef einhver vildi gefa okkur eitthvað sem viðkomandi var hættur að nota og það var oft!


Mér fannst ég ekki gera neitt annað við tímann minn en að koma hlutum fyrir og laga til, sortera o.s.frv.


Hvað gerði ég?

Ég gerði það sem nútímakynslóð gerir þegar við leitum svara við einhverju. Ég fór á GOOGLE. Fyrstu upplýsingarnar sem ég fann á vegferð minni að Einfaldara lífi var einmitt gellan sem er í miklu uppáhaldi landans í dag. Marie Kondo. Ég hlustaði á bókina hennar og byrjaði að fara eftir ýmsu sem hún kenndi. Ég áttaði mig þó fljótlega á því að hennar aðferðir voru ekki lausnin við vandamáli mínu. Ég hélt því áfram að Google og las bækur og hlustaði á hlaðvörp eftir ýmsa einstaklinga (Joshua Becker, Joshua Fields Milesburn, Allie Cazassa, Ryan Nicodemus ofl) Þessi einstaklingar eiga það allir sameiginlegt að hafa fengið nóg af magni hluta og kaupæðis og það var akkúrat það sem ég var að leita að. Ég var ekki að leita mér að enn einni aðferðinni til að sortera eða laga til. Ég fór að leita mér upplýsinga um mismunandi tegundir minimalisma. Ég komst að því að það er engin ein leið sem hentar öllum. Minimalismi er mismunandi eftir fjölskyldustærð, áhugamálum o.sfrv. En það sem ég gerði var að tileinka mér mismunandi atriði hjá mismunandi fólki og það er sú leið sem ég kalla í dag "Einfaldara líf".


Minimalismi er ekki: Að skipuleggja, raða og setja hlutina á góða staði eins og ég hef gert árum saman.


Minimalismi snýst um að fjarlægja það sem þú þarft ekki á að halda. Losa sig við það sem þú átt áður en það eignast þig og þar finnur með létti.


Um þessar mundir eru fjögur ár liðin frá því að þessi vegferð hófst og líf mitt er mun Einfaldara en það var fyrir fjórum árum.Samt eru fleiri börn á heimilinu og ekki má gleyma því að það er líka komin hundur á heimilið.


Svarið við hraðanum og óreiðunni er ekki að endurskipuleggja dagatalið eða endurraða í skápana. Svarið er að láta það sem mestu máli skiptir í lífinu hafa forgang en fjarlægja úr lífi okkar það sem vinnur gegn því.


  • Getur verið að magn hluta á heimilinu þínu sé að vinna gegn draumum þínum?

  • Getur verið að hraðinn í samfélaginu sé að koma í veg fyrir það að þú njótir lífsins?


Ef svarið er ! Þá hvet ég þig til þess að taka einföld skref í átt að einfaldara lífi í dag. TÍU TÍU er skjal sem ég bjó til fyrir alla þá einstaklinga sem vilja taka einföld skref í átt að einfaldara lífi. Þú getur smellt hér til að skrá netfangið þitt og þú munt fá skjalið sent í pósti innan skamms.


Vinsamlega athugið.

Ef þú ert með gmail, gæti pósturinn lent í "auglýsingar" eða "promotions". Þú getur fundið hann með því að skrifa "einfaldaralif.is" í leitarstikuna.Gangi þér vel að einfalda!


Kærleikskveðja,


Gunna Stella

IIN Heilsumarkþjálfi, B.ed

© 2017 Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir