Search
  • Gunna Stella

Kombucha

Updated: Apr 17, 2018

Í Heilsumarkþjálfunarnáminu og heilsugrúskinu mínu hef ég oft heyrt um drykkinn Kombucha. Lengi vel var þessi drykkur ekki fáanlegur á Íslandi en nú hefur hann verið seldur hér um nokkurt skeið. Fyrst um sinn var hann innfluttur en nú er farið að framleiða hann á Íslandi og gleðst ég mikið yfir því.


Hvað er Kombucha?

Kombucha er talinn eiga rætur sínar að rekja til Kína. Þar var hann þekktur undir nafninu Te eilífs lífs. Það víst ekki hægt að lofa því þó svo hann hafi verið kallaður það en hollur er hann. Þetta er gerjaður tedrykkur sem er t.d frábært að skipta út fyrir gos. Hann inniheldur fullt af góðum gerlum sem geta hjálpað meltingarkerfinu og er mjög næringarríkur. Sem sagt dásamleg blanda!Íslenskur Kombucha

Um daginn rakst ég á íslenskan Kombucha sem er framleiddur af Kúbalúbra ehf. Ég keypti original Kombucha (í Krónunni) sem er ódýrari en þessi sem er með t.d myntu og jarðaberjabragði. Ég hafði lesið innihaldslýsingu og sá að það var einungis 0.1% mynta svo ég hugsaði að ef mér myndi finnast hann vondur þá gæti ég alltaf skellt einum dropa af piparmyntuolíu (ilmkjarnaolíu sem má innbyrgða) út í. En ég þurfti svo sannarlega ekki að bæta neinu út í hann.


Ég verð að viðurkenna að ég var mjög hissa. Bragðið var ótrúlega gott. Pínu beiskt og súrt með skemmtilegri áferð. Kombucha er lagaður þannig að hellt er upp á blöndu af gæða te og íslensku vatni og er síðan sykri bætt út í. Þegar te-ið nær réttu hitastigi þá fer gerjun í gang (svipað og þegar bjór og vín er framleitt). En drykkurinn er samt ekki áfengur! Það sem gerist síðan er að örveruþyrpingin nærist á sykrinum og koffíninu og það knýr gerjunina áfram sem gerir drykkinn stútfullan af góðum gerlum með lágum sykurstuðli.


Ég mæli með því að þú prófir Kombucha og styðjir íslenska framleiðslu!

Það er alltaf jákvætt og gott.


Heilsukveðja,


Gunna Stella


© 2017 Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir