Search
  • Gunna Stella

Hvernig get ég einfaldað lífið?

Þessi hugmynd um einfaldara líf er mjög heillandi. Finnst þér það ekki?


En er þetta raunverulega hægt?


Einu sinni fórum við hjónin með börnin okkar fjögur í ferðalag til Flórída. Við höfðum húsaskipti og dvöldum í dásamlegu húsi í fallegu hverfi rétt fyrir utan Orlando. Þennan tíma sem við vorum þar tók ég eftir því hvað var auðvelt að halda húsinu hreinu og hvað það var auðvelt að laga til. Lítið var um skrautmuni í húsinu og enginn óþarfi. Húsið var samt sem áður mjög fallegt og var innréttað á fallegan hátt. Börnin voru með eitthvað af leikföngum og allir með nokkur sett af fötum.

Þetta var afskaplega ljúft og þægilegt frí. Þarna var ég byrjuð á vegferðinni að einfalda lífið en var ekki komin langa leið. Þegar heim var komið hugsaði ég oft um húsið sem við vorum í þegar við vorum í Flórída og mig langaði til þess að heimilið okkar yrði eins og það heimili þ.e einfaldara! Þegar heim var komið hélt ég vegferðinni áfram og náði að losa okkur við allskonar hluti, skrautmuni og leikföng. Í dag er ég ennþá á þessari vegferð og þrái að hjálpa öðru fólki að gera slíkt hið sama.


En hvernig er hægt að einfalda heimilið sitt?


Það eru margar aðferðir til þess og þess vegna hef ég meðal annars búið til námskeiðið Einfaldara líf - Betra líf sem hjálpar þér að læra að einfalda lífið á átta vikum.

Það þarf ekki að vera flókið að byrja.


10 mínútur á dag

Gefðu þér 10 mínútur á dag í eina viku til að fara um heimilið þitt, horfa á hlutina í kringum þig og spyrja sjálfa þig eftirfarandi spurningar: Þarf ég á þessu að halda? Ef svarið er nei, settu það þá í kassa og farðu með það á næsta Nytjamarkað.


Litlu hlutirnir

Farðu í gegnum skúffuna (sem þú safnar drasli í), baðskápinn og ískápinn og spyrðu sjálfa þig sömu spurningar og í 10 mínútna aðferðinni. Þarf ég á þessu að halda?

  • Ruslaskúffan eldhúsinu

  • Baðherbergisskápurinn

  • Ísskápurinn


Þessi einföldu atriði geta hjálpað þér að byrja. Þú munt finna mun

þegar þú losar þig við hlutina í stað þess að endurraða þeim.


Ég þrái að hafa heimilið mitt einfaldara vegna þess að það gefur mér meiri tíma með börnunum mínum, gefur mér meira svigrúm til þess að sinna áhugamálum mínum og það gefur mér meiri ró.


Af hverju vilt þú hafa þitt heimili einfaldara?


Þangað til næst ....


Hamingjukveðja,

Gunna Stella
© 2017 Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir