Search
  • Gunna Stella

Er komin tími á sjálfrækt?


Þessi grein birtist í Dagskránni, fréttablað suðurlands í lok febrúar 2019.


Mér finnst oft vera mikið áreiti í samfélaginu. Það hefur aldrei verið jafn auðvelt að taka vinnuna með sér heim og fólk býst helst við svari strax og það er búið að senda tölvupóst. Aldrei fyrr hefur því verið mikilvægara að sinna sjálfrækt, hlúa að andlegri líðan, sinna hreyfingu og næra sig vel. Ef við sinnum þeim atriðum þá launar líkaminn okkur það margfalt. Með mun meiri orku og meiri gleði.


Þegar þú lest þessa grein er ég stödd á Tenerife með hóp kvenna sem eru að huga að andlegri og líkamlegri líðan. Þessi ferð kallast Heilsa, Hreyfing, Hugarró þar sem ég telmikla þörf á því að konur og (auðvitað karlar líka) hugi að þessum þrem þáttum. Í þessari ferð mun ég gefa þeim nokkur hagnýt verkfæri sem hægt er að grípa til þegar kemur að sjálfrækt. En fyrst og fremst erum við að næra okkur vel, stunda hreyfingu, setja okkur markmið og áskoranir sem hjálpa okkur að vaxa sem einstaklingar ásamt því að hvíla okkur og safna D - vítamíni í kroppinn. Það þarf þó ekki að fara alla leið til Tenerife til þess að geta stundað sjálfrækt. Það er auðvelt að stunda sjálfrækt heima en við þurfum að gefa okkur tíma til þess.

Nú skaltu taka þér smá hlé frá lestri þessarar greinar, ná þér í blað og penna og skrifa niður að minnsta kosti 10 atriði sem hlaða þína heilsu andlega og líkamlega. Þetta geta t.d. verið ferðalög, sundferð, göngutúr, bókalestur, bæn, kósýkvöld með börnunum, stefnumót með maka, hugleiðsla, vinkonuhittingur og þess háttar. Þegar þú ert búin að skrifa þessi atriði niður þá skaltu velja hvaða þrjú atriði þú vilt einbeita þér að næstu vikuna og velja að gefa þér tíma til þess að sinna því. Ég hvet markþega mína alltaf til þess að gera þessa æfingu og sinna þessum atriðum reglulega. Það er nefnilega svo mikilvægt að við vitum hvað það er sem nærir okkur andlega.


Það frábæra er að ef þú velur það að gefa þér tíma til að sinna þeim atriðum sem eru á þessum lista þá mun klárlega vera meiri gleði í lífi þínu og betri andleg líðan. Ef þú vilt fá stuðning á þinni vegferð þá getur þú pantað tíma á heimasíðunni minni www.einfaldaralif.is


Ef þú vilt fylgjast með því sem við erum að gera á Tenerife þá hvet ég þig til að fylgja mér á Instagram undir notendanafninu gunnastella og á Facebooksíðunni Einfaldara líf.


Heilsukveðja,

Gunna Stella

© 2017 Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir