Search
  • Gunna Stella

Er hægt að lifa lengur?


Þessi grein birtist í Dagskránni, fréttablað suðurlands þann 12. febrúar 2019.


Ein mesta ógn við heilsu nútímamannsins er streita. Þetta eru óvæntar fréttir en ættu svo sem ekki að koma á óvart er það? Með hraðanum, tækninni og þéttri dagskrá höfum við minni tíma aflögu en áður til þess að gera hluti sem hafa góð áhrif á heilsuna okkar. Sífellt fleiri einstaklingar þurfa að fara í veikindafrí vegna streitu og fólk nær ekki að njóta lífsins til fulls. Ég þekki hraðan af eigin raun og stóð frammi fyrir vali einn daginn. Ætlaði ég að fylgja hjartanu eða dragast ennþá meira inn í hraða hversdagsins og gleyma því að sinna fólkinu í lífi mínu, draumum mínum, áhugamálum o.sfrv.


Af hverju erum við of uppptekin? Stundum raðast dagskráin þannig að það er mikið að gera. Við hjónin erum með fimm börn á heimilinu og þeim fylgir þétt dagskrá. Þau þurfa að mæta í hitt og þetta, sinna heimanámi ásamt mörgu öðru. Ef við ættum alltaf að segja já við öllu sem þau geta tekið þátt í þá myndum við ekki gera neitt annað. Það sama á við dagskrá okkar foreldrana. Ef við myndum leyfa það þá gæti vinnan okkar tekið allan okkar tíma. Við erum sítengd og getum nálgast tölvupóstinn okkar hvar sem við erum og við getum notað samfélagsmiðla hvar sem við erum. Við þurfum að læra að segja nei við því sem hefur minna vægi og hefur tilhneigingu til að búa til meiri streitu og já við því sem við vitum að hefur góð áhrif á okkar andlegu heilsu.Fyrir nokkru síðan las ég frábærar bækur eftir Dan Buettner. Þessar bækur heita The Blue Zones og The Blue Zones of happiness. Bækurnar má til dæmis nálgast á Storytel í hljóðbókaformi á ensku. Margra ára rannsóknir á vegum National Geographic og blaðamannsins Dan Buettner, hafa sýnt fram á að í heiminum eru 5 svæði (svokölluð blá svæði) sem hafa að geyma vísbendingar um það hvernig hægt er að lifa lengra og betra lífi.
Rannsóknir hafa sýnt að það eru nokkur atriði sem einkenna lífsstíl þessara hópa. Hér á eftir koma nokkur dæmi:


Það hreyfir sig: Við erum ekki að tala um lyftingar og maraþon heldur styður lífsstíll þeirra hreyfingu t.d. með því að ganga mikið.

Það hefur tilgang: Það hefur eitthvað að stefna að og hefur ástæðu til að vakna á morgnana.

Það dregur sig í hlé (afstresssar sig): T.d með bæn. Virðir hvíldardag og leggur sig jafnvel yfir miðjan daginn.

Það heldur 80% regluna: Þau hætta að borða áður en þau verða pakksödd og borða minna eftir því sem líður á daginn.

Það borðar plöntumiðaða fæðu. Kjöt einstaka sinnum en mikið af grænmeti.

Það tilheyrir trúarsamfélagi: Samkvæmt rannsóknni getur það að sækja trúarsamfélag 4x í mánuði lengt lífið að meðaltali um 4-14 ár.

Það setur fjölskylduna sína í fyrirrúm: Það sinnir maka sínum, börnum og ættingjum vel. Börn umgangast eldra fólk og eldra fólk umgengst börn.

Það á nána vini: Vini sem það getur opnað hjarta sitt fyrir og hittir þá reglulega.

Þetta fólk upplifir minni streitu en við. Það er af því að það gefur sér tíma til þess að gera jákvæða hluti sem hlaða heilsuna og hafa góð áhrif á andlega líðan. Staðreyndin er sú að við þurfum að læra að segja já við því sem hefur jákvæð áhrif á líf okkar og nei við því sem hefur það ekki.


Stundum er hreinlega besta að gefa sér tíma til að drekka kaffibolla með góðri vinkonu eða góðum vini.


Ég á mér skýrt markmið um að halda áfram að einfalda mitt líf og hjálpa öðrum að gera slíkt hiða sama.


Einfaldara líf = Streituminna líf = jákvæðara líf


Heilsukveðja,

Gunna Stella

© 2017 Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir