Search
 • Gunna Stella

Einfaldari aðventa


Á þessum tíma eru margir farnir að kaupa jólagjafir eða eru jafnvel búnir!

Vel gert, ef það ert þú!  


Ég fór sjálf í jólagjafaleiðangur fimmtudaginn 15.11 þegar búðir á Selfossi voru með allskyns tilboð í gangi eftir að kveikt hafði verið á jólaljósunum. Ég var mjög ánægð með árangurinn því ég náði að græja ýmislegt sem ég hafði ætlað mér að klára. Ég á mér nefnilega draum um að vera búin að kaupa allar jólagjafirnar í byrjun desember. En ég á mér líka annan draum!


Ég á mér draum um einfaldari aðventu.

Það er ekki nein ákveðin regla þegar kemur að aðventunni. Aðventan hjá minni fjölskyldu er kannski ekki eins og hjá þinni. Það er í raun ekki eitthvað sérstakt sem þú verður að gera eða átt að gera.

 • Þú þarft ekki að fara á jólahlaðborð.

 • Þú þarft ekki að þrífa húsið hátt og lágt

 • Þú þarft ekki að kaupa jólagjafir.

 • Þú þarft ekki að gera aðventukrans.

 • Þú þarft ekki að setja upp jólatré.

 • Þú þarft ekki að fara í Ikea og taka myndir með jólasveininum.

 • Þú þart ekki að senda jólakort.

 • Þú þarft ekki að baka margar smákökusortir.

 • Þú þarft ekki að horfa á jólamyndir.

 • Þú þarft ekki að mæta í skötuveisluna.


Í síðastliðinni viku fór ég ásamt fjölskyldu minni í Bíóhúsið á Selfossi til þess að horfa á myndina The Grinch og ég verð að viðurkenna að þegar ég skrifaði setningarnar hérna fyrir ofan þá leið mér að ákveðnu leiti eins og ég væri að setja mig í hlutverk herra Grinch. En ég er alls ekki að reyna það, í alvöru!


Kannski hugsaðir þú þegar þú last setningarnar hér fyrir ofan “En ég elska að ________(fylltu í eyðuna)” og veistu hvað! Það er frábært. Ég elska líka svo margt við aðventuna og geri sjálf margt sem er á listanum af því mér finnst það skemmtilegt.  En það er ekki þar með sagt að ég hafi haldið í allar þær hefðir sem við “eigum” að halda í sem íslendingar.


Við fjölskyldan höfum búið til okkar eigin hefðir sem við elskum. Margar þeirra eða í raun flestar þeirra tengjast samverustundum okkar fjölskyldunnar. Minningar um góðar samverustundir eru mun betri en minningar um hraða og streitu.


Í mörg ár hef ég útbúið jóladagatal fyrir okkur fjölskylduna. Ég og vinkona mín , hún Dagbjört höfum deilt hugmyndum með hvor annarri sem við höfum safnað saman á exel skjali í nokkur ár.  Með árunum hefur bæst í barnahópinn hjá okkur báðum og börnin hafa stækkað og alltaf hafa þau jafn gaman af. Eitt vinsælasta atriðið á okkar heimili hefur verið sú hefð að sofa í stofunni það kvöld sem við höfum skreytt jólatréð. Við höfum sofið misvel en eftir situr skemmtileg minning um stóra flatsæng á miðju stofugólfinu.


Í ár ákvað ég að taka þessa jóladagatalshefð  skrefinu lengra og gera dagatalið á tölvutæku formi og deila henni með fleiri einstaklingum í þeirri von að þetta muni hjálpa öðrum að gera aðventuna einfaldari og eftirminnilegri. Þú getur nálgast jóladagatalið, leiðbeiningar og hugmyndalista ókeypis á heimasíðunni minni www.einfaldaralif.is. Ég vona að þessi dásamlega jólahefð eigi eftir að blessa fjölskylduna þína jafn mikið og hún hefur blessað mína.Með von um að þú og fjölskylda þín eigið yndislega aðventu.


Gunna Stella

IIN Heilsumarkþjálfi

B.ed.© 2017 Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir