Search
  • Gunna Stella

Dauðahafið

Í síðustu viku var ég stödd í Ísrael ásamt eiginmanni mínum og dóttur. Við flugum þangað í beinu flugi með WOW air. Virkilega gott flug og mjög svo áhugavert að sjá í hversu miklum minnihluta íslendingar voru um borð. Ég vona að þeim fari að fjölga því það er svo margt áhugvert að sjá í Ísrael. Við skoðuðum margt og gerðum mikið á nokkrum dögum. Við keyrðum meðal annars niður að Dauðahafinu sem er stórt stöðuvatn á landamærum Ísraels og Jórdaníu. Dauðahafið er miklu saltara en sjórinn vegna þess að það er ekki jafnvægi á milli innstreymis og útstreymis. Áin Jórdan streymir meðal annars í Dauðahafið en hins vegar er ekkert útstreymi úr vatninu enda er það undir 420 metra undir sjávarmáli og því oft mjög heitt þar.


Ég var gífurlega spennt að upplifa það að fljóta áreynslulaust í vatni og var fljót að skella mér út í þegar við komum að ströndinni. Vá þvílík upplifun. Leið og ég lagðist aftur og slakaði á þá flaut ég. Við keyptum okkur dauðahafsmaska sem maður ber á sig og fer svo út í vatnið til að skola hann af. Aron (maðurinn minn) var búin að kynnast lífverðinum á ströndinni vel og sá hinn sami bauðst til að fara með okkur lengra út á vatnið til þess að skola af okkur maskann. Þegar við vorum komin vel út á vatnið sagði hann að það væri fínt fyrir okkur að fara út úr bátnum núna. Rödd innra með mér hrópaði "nei" þú sekkur, þetta er of djúpt. Því ég vissi að dýpið var orðið mun meira. En að lokum létum við vaða. VÁ! Við flutum. Við gátum þrifið maskann af okkur í rólegheitunum, án þess að hafa áhyggjur af því að sökkva. Við gátum hinsvegar ekki þrifið maskann í andlitinu af okkur í Dauðahafinu þar sem það er mjög óþæginlegt að fá saltið í augun og munninn (trúið mér). Við létum það því bíða þangað til við vorum komin aftur upp á strönd.


Þetta verður dagur sem ég mun lifa lengi á. Góðar minningar eru dásamlegar og þær kæta og gleðja hjartað.


Þangað til næst


Gunna Stella
© 2017 Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir