Search
  • Gunna Stella

Brauðið sem ég baka svo oft

Ég elska nýbakað brauð! Fyrir nokkrum árum áttaði ég mig á því að ég fékk ofnæmisviðbrögð í augun ef ég bakaði úr hveiti. Ég veit ekki ennþá af hverju það er en fæ þessi viðbrögð ef ég vinn með hveiti. Kenningin mín er sú að það sé svo mikið unnið. Ekki lífrænt og jafnvel einhver aukaefni í því sem ég þoli ekki. Upp úr þessu ákvað ég að skipta hveitinu út fyrir spelt. Ég fæ ekki þessi sömu viðbrögð og spelt fer mjög vel í mig og alla fjölskyldumeðlimi. Í dag kaupi ég ekki hveiti eða hvítan sykur en baka samt sem áður mjög mikið. Það er mjög auðvelt að breyta uppskriftum og skipta hveiti út fyrir spelt og skipta sykri út fyrir kókospálmasykur.


Mig langar til þess að deila með ykkur uppskrift af brauði sem er mjög vinsælt á okkar heimili. Kosturinn við þetta brauð er að það tekur nokkrar mínútur að skella í það og maður getur bætt allskyns fræjum við það, rúsínum eða hverju því sem manni dettur í hug og það verður alltaf gott.


Upphaflegu uppskriftina fékk ég úr bókinni Eldað með Ebbu í Latabæ en uppskriftin hefur tekið örlitlum breytingum.


370 gr gróft spelt

2 msk fræ (t.d graskersfræ, hörfræ, sólblómafræ)

1 msk vínsteinslyftiduft

1-2 msk lífrænt hunang eða kókospálmasykur (má sleppa).

0,5 dl volgt vatn

3 dl Möndlumjólk/kókosmjólk eða nýmjólk. (Mér finnst best að hafa möndlumjólk eða kókosmjólk. Það gefur brauðinu smá sætan keim). Hrært saman þangað til deigið er eins og blaut klessukaka. Mjög mikilvægt er að hafa deigið ekki of þurrt því þá verður brauðið þurrt.


Deigið sett í brauðform og fræjum stráð yfir (mér finnst best að nota sesamfræ eða graskersfræ).


Bakað við 180°á blæstri í 45 mínútur.


Gott er að láta brauðið kólna aðeins áður en það er tekið úr forminu.


Njótið vel!


Kærleikskveðja,

Gunna Stella


© 2017 Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir