Search
  • Gunna Stella

Bestu piparkökurnar


Ég veit þetta eru kannski ýkjur en í mínum huga er þessi uppskrift af piparkökum sú allra besta. Ég var aldrei mikið fyrir piparkökur, ekki einu sinni þegar ég var barn. En þegar ég prófaði þessa uppskrift þá breyttist það. Nú get ég borðað piparkökur með bestu lyst.


Nú er það orðin hefð hjá okkur fjölskyldunni að baka þessar einföldu og frábæru piparkökur í desember. Það skemmtilega við piparkökur er að allir hafa gaman af, bæði fullorðnir og börn. Börnin spreyta sig með kökukeflið, læra að hnoða og það er allt í lagi þótt að það fari spelt á fötin eða gólfið. Þessi hefð skapar góðar minningar og kemur með góða lykt í húsið.


Bestu piparkökurnar


8 dl spelt (gróft)

2 dl kókospálmasykur

3 tsk vínsteinslyftiduft

2 tsk engifer

4 tsk kanill

2 tsk negull

hnífsoddur af svörtum pipar. Ef þú ert með piparinn í piparstauk sem malar hann jafnóðum er gott að snúa svona 4-5 sinnum.

160 gr mjúkt smjör

2 dl möndlu/haframjólk (hægt að kaupa hana blandaða í Bónus)

0,5 dl hlynsýróp (hreint).
1. Blandið þurrefnum saman

2. Skerið smjör í litla bita og bætið út í deigið.

3. Bætið mjólk og hlynsýrópi í deigið.

4. Ef þú átt hrærivél er best að hnoða deigið í henni.

5. Stundum þarf að bæta meiri möndlumjólk út í deigið. Það fer eftir því hversu mikin vökva speltið drekkur í sig.

6. Hnoðist vel (ekki of lengi svo deigið verði ekki seigt)

7. Skiptið deiginu í bita. Fletjið út og skemmtið ykkur við að búa til fjölbreyttar og fallegar piparkökur.Okkur finnst gott að hafa sumar kökur þykkar og aðrar þunnar.


Bakist við 180°Í sirka 10 mín


Borðist strax eða geymist í frysti


Jólakveðja,


Gunna Stella

© 2017 Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir