Search
  • Gunna Stella

Að setja sér markmið

Updated: Apr 7, 2018

Hefur þú sett þér markmið sem þú nærð ekki að standa við?


Ég hef oft sett mér markmið sem ég næ ekki að standa við og hef svo brotið sjálfa mig niður ef ég næ ekki að standa við sett markmið. Það hjálpar ekki til og er ekki hvetjandi, er það?


Hvernig er þá hægt að ná markmiðum sínum?Að segja öðrum frá því hvert markmiðið er

Til þess að ég nái þeim markmiðum sem ég set mér, þá finnst mér gott að segja öðrum frá markmiðum mínum. Þennan mánuðinn hef ég til að mynda það markmið að fylgja Pilates æfingaprógrammi sem ég geri heima hjá mér. Ég hef verið að gera Pilates æfingar heima, en þetta prógramm er aðeins meiri áskorun en það sem ég hef verið að gera. Að skrifa það hér heldur mér við efnið og einnig sú staðreynd að ég tilheyri hópi 3 kvenna sem hittast vikulega til að athuga hvernig lífið gengur. Við spyrjum hvor aðra meðal annars hvernig gangi að halda jafnvægi í hreyfingu og hvíld. Ég hitti þær á Zoom samskiptaforritinu í gær (við búum ekki á sama stað á landinu) og þá sagði ég þeim frá þessu markmiði mínu. Í næstu viku veit ég að þær munu spyrja mig hvernig vikan gekk og því heldur þetta mér við efnið. Algjör snilld!

Að setja sér raunhæf markmið

Markmiðin sem við setjum okkur þurfa að vera raunhæf. Það þýðir samt ekki að markmiðin geti ekki verið áskorun. Rannsóknir hafa sýnt að þegar fólk setur sér nákvæm og krefjandi markmið þá leiði það til betri árangurs. Það er mjög mikilvægt að markmiðið sé nákvæmt því þá eru meiri líkur á því að við náum markmiðinu. Ég veit ekki hversu oft ég setti mér það markmið hér áður fyrr að fara í ræktina nokkrum sinnum í viku. EN þegar á hólminn var komið þá fannst mér það of flókið. Mér fannst erfitt að fara mjög snemma og vildi ekki taka tíma frá börnunum til að fara í ræktina eftir að þau voru komin heim úr skóla og leikskóla. Í þessu brasi mínu komst að því að heimaæfingar hentuðu mér mjög vel og hef ég núna stundað mína líkamsrækt heima í ár. Ég hef tekið þátt í Sterkari á 16 hjá snillingnum henni Söru Barðdal hjá Hiitfit og gert Pilates æfingar hjá henni Robin Long sem heldur úti síðunni Balanced life. Þetta hefur hentað mér mjög vel. Kosturinn við það að gera æfingar heima er að ég get vaknað á undan öðru heimilisfólki og gert æfingar á dýnunni minni, skellt mér svo í sturtu og verið tilbúin fyrir daginn. Fyrir mig var það raunhæft markmið fyrir ári síðan og er enn í dag.Að fagna litlu sigrunum

Þegar við setjum okkur markmið er líka frábært að fagna litlu sigrunum. Ef þú setur þér stórt markmið þá er gott að fagna litlu skrefunum sem leiða þig í átt að stóra markmiðinu. Ekki bera þig saman við aðra. Horfðu á sigrana sem þú ert á að ná í eigin lífi. Við erum öll á misjöfnum stað í lífinu. Ef til vill er einhver að lesa þetta sem á mjög auðvelt með að hlaupa mjög marga kílómetra. Ég er ekki á þeim stað. En ég fagna þeim stað sem ég er á en hef samt sem áður markmið um að verða liprari, liðugri og heilbrigðari. Ég hreyfi mig oft í viku en kannski er einhver að lesa þetta sem nær að fara í stutta göngutúra tvisvar sinnum í viku. Kannski er þitt markmið að ná að fara í göngutúr 4 sinnum í viku og það er frábært! Fögnum því á hvaða stað við erum og fögnum ennþá meir þegar við tökum skref í áttina að stærrri markmiðum.


Ef þú vilt fá hjálp við að setja þér markmið. Hafðu þá samband við mig. Ég get veitt þér ráðgjöf og stuðning til þess að þú getir upplifað betri heilsu og meiri vellíðan.


Einnig mun ég taka markmiðssetningu og tímastjórnun fyrir á námskeiðinu Einfaldara líf - Betra líf sem hefst 9. apríl. Smelltu hér til að kynna þér málið betur.


Þangað til næst....


Gunna Stella

Heilsumarkþjálfi og Kennari

© 2017 Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir