Í mörg ár glímdi ég við mikinn ótta. Ótti stjórnaði lífi mínu á svo margan hátt. Ég var hrædd við að fljúga, hrædd við að keyra, hrædd við fólk og hrædd við að vera hrædd. Árið 2005 hófst tímabil innri vinnu í lífi mínu. Ég fékk ég tækifæri til að takast á við óttan í lífi mínu og læra að þekkja sjálfa mig. Ég öðlasti frelsi frá ótta og fór að þora að ferðast, fljúga, halda fyrirlestra og eiga samskipti við fólk á eðlilegum nótum. Ég hef fengið ótal tækifæri til að hjálpa konum að takast á við óttan í lífi sínu og hef tekið þátt í námskeiðum sem vinna að andlegu heilbrigði ásamt því að kenna á slíkum námskeiðum.

 

Fyrir nokkrum árum fór ég einnig að sjá að andlegt og líkamlegt heilbrigði fer oft hönd í hönd. Ég hef alltaf haft áhuga á mat, matargerð og bakstri. Við hjónin áttum mjög erfitt með eignast fleiri börn eftir að við áttum okkar fyrsta barn og í kjölfar þess fór ég að kynna mér það hvernig mataræði hefur áhrif á kvenlíkamann. Mataræði mitt var ekki heilbrigt og þurfti ég að breyta mataræði mínu að þó nokkru leiti. Eftir langa bið og mörg tár varð ég loksins ófrísk að öðru barninu okkar og svo komu barn númer 3 og 4 algjörlega óvænt í kjölfarið.  Eftir því sem börnunum hefur fjölgað hef ég öðlast meiri áhuga á heilbrigðum lífsstíl og hollari mat. Ég hef prufað mig áfram í gegnum árin og hef öðlast meiri og betri þekkingu eftir því sem árin hafa liðið og í dag elska ég að elda og baka hollan, góðan og nærandi mat.

 

Þegar ég var ófrísk af fjórða barninu mínu áttaði ég mig á því að ég hringsnérist á heimilinu. Það var endalaust af hlutum, fötum og allskonar dóti sem þurfti að koma fyrir á heimilinu og mér fannst ég alltaf vera að laga til. Ég fór að leita mér upplýsinga um það hvort ekki væri hægt að einfalda lífið  og fann áhugaverðar upplýsingar um minimalisma. Í kjölfarið fór ég að einfalda lífið. Losa okkur við dót, föt, hluti og allskonar óþarfa og upplifði mikinn létti.

 

Nokkru síðar fór ég í nám sem mig hafði lengi dreymt um að fara í. Heilsumarkþjálfun frá The Integrative Nutrion í New York. Í því námi náði ég að tengja saman áhuga minn á heilbrigðum lífsstíl, andlegu heilbrigði og því hvernig lífið getur orðið einfaldara ef við losum okkur við óþarfa. Ég lærði að til þess að lifa því lífi sem okkur er ætlað að lifa er ekki nóg að taka mataræðið í gegn því er mjög mikilvægt að hafa aðra hluti í lagi t.d  samböndin í lífi okkar, andlega lífið, starfsframann og  heimilið okkar.  Öll þessi atriði tengjast og því er mikilvægt að halda jafnvægi  á öllum þessum sviðum.

Þessi vegferð mín leiddi mig í þá átt að stofna Einfaldaralif.is

© 2017 Gunnhildur Stella Pálmarsdóttir